Innlent

Prestar í Digraneskirkju biðjast afsökunar

Sóknarprestar í Digraneskirkju biðjast afsökunar á því að hafa neitað að ferma stúlku úr Fríkirkjunni. Þeir segjast harma að hafa valdið stúlkunni og fjölskyldu hennar sársauka vegna málsins.

Móðir unglingsstúlku sem vildi fermast með bekkjarfélögum sínum í Digraneskirkju í haust sagði í fréttum okkar í fyrradag að prestur þar hefði neitað henni um fermingu nema móðirin og stúlkan gengju úr Fríkirkjunni og í Þjóðkirkjuna.

Í yfirlýsingu sem séra Magnús Björn Björnsson prestur og séra Gunnar Sigurjónsson sóknarprestur í Digraneskirkju sendu frá sér síðdegis í dag segir:

,,Okkur þótti ekki óeðlilegt að fólk sem þægi alla sína kirkjulegu þjónustu í Þjóðkirkjunni væri skráð í hana. Því settum við það skilyrði að fermingarbörn í Digranessókn væru í Þjóðkirkjunni."

Afstaða þeirra vakti hörð viðbrögð og biskup Íslands óskaði eftir því síðastliðið haust að prestarnir í Digranessókn þjónuðu þeim fermingarbörnum sem til þeirra leituðu. Þá segja þeir :

,,Í ljósi umfjöllunar fjölmiðla um málefni ungrar stúlku sem óskaði eftir að fermast í Digraneskirkju, hörmum við að hafa valdið henni og fjölskyldu hennar sársauka og biðjum þau afsökunar á því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×