Innlent

Aflaverðmæti 70,5 milljarðar fyrstu 11 mánuði ársins

Loðnuveiðiskip út frá Ingólfshöfða.
Loðnuveiðiskip út frá Ingólfshöfða. MYND/Vísir

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 70,5 milljörðum króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2006 samanborið við 63,2 milljarða á sama tímabili 2005. Aflaverðmæti hefur aukist um 7,3 milljarða eða 11,6%. Aflaverðmæti nóvembermánaðar nam 6,2 milljörðum en í nóvember í fyrra var verðmæti afla 5,7 milljarðar.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands í dag. Ennfremur segir á honum að aflaverðmæti botnfisks hafi í lok nóvember verið 52,9 milljarðar miðað við 43,5 milljarða á sama tíma árið 2005 og er aukningin því 21,6%. Verðmæti þorskafla var 24,8 milljarðar og jókst um 9,1%. Aflaverðmæti ýsu nam 10,6 milljörðum, sem er 27,9% aukning, og ufsaaflinn jókst að verðmæti um 58,7%, var 4,3 milljarðar.

Verðmæti flatfiskafla jókst um 3% milli ára, nam 4,8 milljörðum. Aflaverðmæti uppsjávarafla dróst saman um 12,1% milli ára og nam 11,9 milljörðum. Munar þar mestu um verðmæti loðnu sem minnkaði um 54% eða 2,6 milljarða, verðmæti síldar sem dróst saman um 1,2 milljarða eða 17,5% og verðmæti kolmunna, sem varð 3,6 milljarðar samanborið við tæpa 1,4 milljarða í fyrra.

Verðmæti rækju var í nóvemberlok orðið 287 millj. kr. samanborið við 811 millj. kr. í fyrra, sem er samdráttur um 64,7%.

Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu, var 26,6 milljarðar króna sem er aukning um 2,3 milljarða eða 9,3%. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands jókst um 30,2%, var 11,1 milljarðar. Aflaverðmæti sjófrystingar var 23,5 milljarðar og jókst um 4% frá fyrra ári. Verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam 7,5 milljörðum sem er 18,9% aukning.

Frekari tölur er hægt að nálgast hér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×