Erlent

Reynt að bregðast við hlýnuninni

Á ráðstefnu stjórnmálamanna frá áhrifamestu ríkjum heims náðist samkomulag um aðgerðir gegn hlýnun jarðar. Þótt ráðstefnan hafi engin formleg völd er hún talin eiga eftir að hafa fordæmisgildi fyrir þær áðstafanir sem gripið verður til í þessum efnum í framtíðinni.

Í gær voru tvö ár frá því að Kyoto-bókunin svonefnda gekk í gildi en þar er útblástur gróðurhúsalofttegunda takmarkaður til að stemma stigu við síhækkandi hitastigi jarðar. Af þessu tilefni var haldin þingmannaráðstefnan GLOBE í Washington þar sem komnir voru saman stjórnmálamenn frá G8-ríkjunum svonefndu, auk landa á borð við Brasilíu, Kína og Indlandi Markmið hennar var að koma með tillögur sem hægt væri að nota í nýju samkomulagi um loftslagsmál eftir að Kyoto-bókunin rennur út 2012. Í lokaályktun ráðstefnunnar stendur meðal annars að þróunarríkin verði einnig að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, líkt og iðnríkin, og einhvers konar formlegur vettvangur verði settur á fót þar sem hægt verður að skiptast á mengunarkvótum. Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Joe Lieberman sagði á ráðstefnunni að góðar líkur væru á að næsta vetur myndi Bandaríkjaþing samþykkja lög um útblásturtakmarkanir. Þótt fundurinn í Washington hafi verið óformlegur og niðurstöður hans því alls ekki bindandi er vonast til að með honum fáist umræðugrundvöllur sem komið getur formlegum viðræðum um loftslagsmál á skrið á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×