Erlent

Vill ekki tala við fjölmiðla enn um sinn

Boðað var til blaðamannafunda á tveimur stöðum í Missouri í Bandaríkjunum í gærkvöldi til að fagna björgun tveggja unglingsdrengja úr klóm mannræningja. Báðum heilsast vel. Sá þeirra sem var í haldi í á fimmta ár vill ekki segja sögu sína opinberlega enn um sinn.

Shawn Hornbeck hafði verið saknað í fjögur og háflt ár en William Ownby, sem kallaður er Ben, hvarf á mánudaginn fyrir tæpri viku. Það var tilviljun ein sem réði því að lögregla fann þá í fyrradag. Lögreglumenn ráku augun í sendibíl á fimmtudagskvöldið sem passaði við lýsingu á bíl sem fór um þar sem Ownby var rænt. Heimild fékkst til leitar á heimili Michaels Devlins, eiganda bílsins, og þar voru drengirnir, að því er virtist við góða heilsu. Devlin hefur verið ákærður fyrir mannrán og búist er við fleiri ákærum á hendur honum.

Móðir Shawns sagði son sinn ekki vilja tjá sig sem stendur um dvölina hjá Devlin en það ætli hann að gera þegar hann treysti sér til þess, fyrr tali hann ekki við fjölmiðla. Fjölskyldan þurfi fyrst að takast á við atburði síðustu fjögurra ára og græða sárin. Hún vildi þakka öllum þeim sem hefðu hjálpað við leitina að Shawn. Hún sagði að sér þætti sem hún dreymdi, en í þetta sinn væri það ekki martröð líkt og síðustu tæplega fimm árin.

Móðir Bens þakkar lögreglu fyrir að bjarga syni sínum. Hún segir þessa raun hafa haft áhrif á son sinn. Hann vildi lítið sem ekkert láta taka utan um sig en hann hefði ekkert um það að segja.

Lögregla hefur ekki viljað tjá sig um málið umfram það sem þegar hefur komið fram. Enn þurfi að rannsaka fortíð og ferðir Devlins og kanna bakgrunn hans. Enn sé mikið verk óunnið áður en hann verði dreginn fyrir dóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×