Innlent

Logar í dekkjum á Akureyri

Á myndinni má sjá reykjarmökkinn.
Á myndinni má sjá reykjarmökkinn. MYND/Finnbogi

Eldur logar nú í dekkjahrúgu hjá fyrirtækinu Hringrás við Krossanes í norðurenda bæjarins. Slökkvilið er á staðnum og er að undirbúa slökkvistarf. Búið er að taka hluta af dekkjahrúgunni til hliðar þess að auðvelda slökkvistarf.

Þorbjörn Haraldsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, segir að þeir hafi náð stjórn á eldinum. „Þetta er mikil aðgerð. Við erum búnir að minnka mögulegt brunasvæði og höldum eldinum í skefjum með vatni. Við erum líka byrjaðir að dæla úr sjó," sagði Þorbjörn í viðtali við Vísi. „Við erum að bíða eftir meiri froðu sem við ætlum síðan að dæla á eldinn."

Mikill reykur er af eldinum en hann leggur ekki yfir bæinn þar sem vindátt er hagstæð. Lögreglan á Akureyri segir að líklegt sé um íkveikju að ræða þar sem ekki kvikni í svona dekkjahrúgu af sjálfu sér.

Austanátt er á staðnum og fylgist lögregla með reyknum ef vindátt skyldi breytast og hann færi yfir íbúabyggð. Ef það gerist þá ráðleggur lögregla íbúum að loka gluggum og yfirgefa hýbýli sín. Um kolsvartan olíureyk er að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×