Erlent

500 handteknir

Guðjón Helgason skrifar

Yfirvöld í Pakista hafa handtekið hátt í 500 manns eftir að neyðarlög voru sett þar í gær - þar á meðal stjórnarandstæðinga og fulltrúa hjálparsamtaka. Forsætisráðherra Pakistans segir neyðarlög gilda eins lengi og þurfa þyki og þingkosningum frestað um ár.

Pervez Musharraf, forseti Pakistans, segir neyðarlögin sett til að forða landinu frá glötun. Hryðjuverk, starfsemi öfgahópa, lamað stjórnkerfi og aðgerðir skriffinna hafi dregið kraft úr lögreglu og hafi því um leið áhrif á lýðreðislegt kerfi í landinu.

Musharraf hefur verið sakaður um að hafa numið stjórnarskrá landsins úr gildi til að forða því að hæstiréttur ógilti forsetakjör hans í síðasta mánuði.

Benazír Búttó, fyrrverandi forsætisráðherra - sem sneri heim úr útlegð í síðasta mánuði, biðlaði til alþjóðasamfélagsins eftir sviptingar gærdagsins. Hún sagðist fordæma og mótmæla því sem hún kallaði herlög. Pakistanar myndu ekki sætta sig við slíkt og þess óskað að alþjóðasamfélagið geri slíkt hið sama. Ríki heims eigi ekki að styðja einn mann heldur almenning í Pakistan. Þar sem þau hafi áhrif á forsetann eigi þau að nota það og reyna að sannfæra hann um að það skipti miklu að stjórnarskráin verði látin gilda á ný.

Shaukat Aziz, forsætisráðherra, segir að svo gæti farið að þingkosningum - sem áttu að fara fram í janúar - verði frestað um ár. Neyðarlög verði í gildi eins lengi og þurfa þyki. Allt sé þetta gert til að tryggja samhljóm þannig að stjórn landsins gangi snuðrulaust fyrir sig.

Andstæðinga forsetans hafa mótmælt á götum Íslamabad í dag. Búist er við frekari mótmælum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×