Erlent

Samgöngur í Danmörku raskast vegna óveðurs

Stórhríð og frost hafa valdið verulegum samgönguörðugleikum í Danmörku og sunnanverðum Noregi og Svíþjóð. Horfur eru á umtalsverðum töfum í lofti og á láði fram eftir degi.

Samgöngur hafa raskast verulega. Flugfélagið SAS hefur aflýst 34 flugum af þeim 330 sem eiga að fara til og frá Kaupmannahöfn í dag. SAS hefur þurft að sjá fleiri en þúsund flugfarþegum fyrir fæði og gistingu vegna veðursins. Talsmenn SAS segja þó að þeir búist ekki við því að flugfarþegar þurfi að bíða lengur en einn dag.

Í tilkynningu frá flugmálayfirvöldum í Danmörku kom fram að flugfarþegar mættu búast við seinkunum á öllum flugum í dag. Strætósamgöngur í höfuðborginni hafa einnig raskast og hefur 146 strætóferðum verið frestað á meðan ófærð stendur.

Vegna veðursins hefur fólki um allt land verið ráðlagt að halda sig heima við. Nokkrum hraðbrautum í Danmörku hefur verið lokað vegna fannfergis. Lestarsamgöngum hefur einnig verið frestað víða um Danmörku þar sem of mikill snjór er á teinunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×