Lögreglan hafði afskipti af tveimur bensínþjófum í gær. Liðlega þrítugur karlmaður tók eldsneyti fyrir tvö þúsund krónur á bensínstöð í Vogahverfi og keyrði á brott án þess að greiða fyrir það. Maðurinn bar við minnisleysi þegar lögreglan sótti hann heim og fór fram á greiðslu skuldarinnar. Hann lét síðan til leiðast, fór á bensínstöðina og gerði upp.
Þá lék maður á þrítugsaldri sama leik á bensínstöð við Vesturlandsveg. Lögreglumaður bar kennsl á kauða og kemst hann ekki undan að greiða eitt þúsund krónur sem hann skuldar fyrir bensínið.
Lögregla hefur nú til rannsóknar þrjá aðra bensínþjófnaði á höfuðborgarsvæðinu eftir gærdaginn.
Þá hafði lögreglan afskipti af þremur búðarþjófum á höfuðborgarsvæðinu í gær.