Fótbolti

Bellamy þráir að spila úrslitaleikinn

Bellamy þráir ekkert heitar en að fá að spila í úrslitum Meistaradeildarinnar.
Bellamy þráir ekkert heitar en að fá að spila í úrslitum Meistaradeildarinnar. MYND/Getty

Craig Bellamy, hinn velski framherji Liverpool, segist munu verða eyðilagður maður, fari svo að hann fái ekki að taka neinn þátt í úrslitaleiknum við AC Milan í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið. Bellamy hefur ekki verið inn í myndinni hjá stjóranum Rafa Benitez síðustu vikur.

Bellamy viðurkennir í viðtali við enska fjölmiðla í morgun að þeir 12 mánuðir sem hann hefur dvalið hjá Liverpool hafi ekki verið þeir bestu á hans ferli.

“Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að miðvikudagskvöldið er það stærsta á mínum ferli. Kannski á ég aldrei eftir að taka þátt í eins stórum leik. Það er alls ekki öruggt að ég taki þátt í leiknum, en ég stefni á að vera í hópnum og vera tilbúinn ef þjálfarinn þarf á mér að halda,” segir Bellamy, en hann hefur einmitt mátt þola mikla bekkjarsetu síðustu vikur.

 

 Bellamy hefur átt í nokkrum meiðslavandræðum í vetur og eytt miklum tíma á hliðarlínunni í endurhæfingu. “Ef ég fæ að taka þátt í leiknum mun öll endurhæfingin í vetur hafa verið þess virði. Að spila úrslitaleik í þessari stærstu keppni heims er það sem ég hef stefnt að allt mitt líf. Ef ég fæ ekki að spila mun ég verða eyðilagður,” segir Bellamy. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×