Íslenski boltinn

Kærum okkur ekki um neina forgjöf

Fjölnismenn eru öllum að óvörum komnir í úrslit Visabikarsins
Fjölnismenn eru öllum að óvörum komnir í úrslit Visabikarsins Mynd/Pjetur
"Það liggur ljóst fyrir í samningnum sem gerður var milli félaganna að lánsmenn FH mega ekki spila gegn félaginu sínu í bikarkeppninni og það er klárt, en það getur vel verið að við tökum aðra ákvörðun þegar nær dregur," sagði Pétur Stephensen, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar FH í samtali við Vísi í dag þegar hann var spurður hvort FH-ingarnir þrír sem leika sem lánsmenn hjá Fjölni fengju að spila úrslitaleikinn í Visa-bikarnum gegn FH.

Leikmennirnir sem um ræðir eru Atli Viðar Björnsson, Heimir Snær Guðmundsson og Sigmundur Pétur Ástþórsson. Þeir tveir fyrrnefndu voru í byrjunarliði Fjölnis gegn Fylki í fræknum sigri liðsins á Fylki í undanúrslitum keppninnar í gær, en Sigmundur kom inn sem varamaður. Atli Viðar var hetja Fjölnis og skoraði sigurmarkið í framlengingunni.

"Það er enn mánuður í úrslitaleikinn og við eigum eftir að hugsa málið betur. Samningurinn er skýr um það að þeir geti ekki spilað gegn FH í bikarnum, en við hinsvegar kærum okkur ekki um að fá neina forgjöf og þurfum ekkert á því að halda. Í okkar huga er það alveg ljóst. Það datt engum í hug þegar þessir samningar voru gerðir að liðin myndu mætast í úrslitum bikarkeppninnar, en þannig er nú staðan í dag. Annars eru bæði félögin eflaust að einbeita sér meira að deildinni um þessar mundir. FH og Fjölnir eru vinafélög og það hefur alltaf verið gott samstarf á milli þessara félaga," sagði Pétur Stephensen.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×