Erlent

Þúsund fallnir á sjö dögum

Forsætisráðherra Íraks kennir stuðningsmönnum Saddams Hussein um hryðjuverkið í Bagdad í gær sem kostaði 135 mannslíf. Um eitt þúsund manns hafa látið lífið undanfarna viku í ofbeldisverkum í landinu.

Árásin í Bagdad í gær er sú mannskæðasta sem framin hefur verið frá því að ráðist var inn í landið vorið 2003. Hún varð með þeim hætti að vörubíl drekkhlöðnum sprengiefni var ekið að markaðstorgi í einu af sjíahverfum borgarinnar og hann svo sprengdur upp með þeim afleiðingum að 135 dóu og hátt í þrjú hundruð særðust. Heilu húsaraðirnar tættust í sundur eða jöfnuðust hreinlega við jörðu. Í morgun blasti eyðileggining alls staðar við, enn var verið að leita að líkum í rústum húsa og grátandi fólk ráfaði um blóði drifnar göturnar.

Í yfirlýsingu sinni í gærkvöld kenndi Nuri al-Maliki forsætisráðherra fylgismönnum Saddams Hussein fyrrverandi forseta landsins um tilræðið og hét því að ríkisstjórnin myndi taka öfgamenn enn fastari tökum en áður. Maliki hefur áður haft svipaðar heitstrengingar í frammi en ekki er að sjá að stjórnin fái neinum böndum komið á ofbeldið í landinu. Samkvæmt heimildum Reuters-fréttastofunnar hafa um eitt þúsund manns látið lífið í sjálfsmorðstilræðum, skotárásum og bardögum á milli hermanna og uppreisnarmanna síðastliðna viku. Undanfarnir mánuðir hafa einkennst af sífellt stærri og mannskæðari árásum svo augljóst er að andspyrnuhóparnir í landinu eru vel skipulagðir og hafa nægt fé til að inna slík voðaverk af hendi.

Ofbeldið hélt áfram í morgun en þá fórust fjórir í bílsprengjuárás í höfuðborginni og skammt fyrir utan hana létust fjórir lögreglumenn þegar þeir óku yfir sprengju í vegkanti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×