Erlent

Kreistir chillivökva yfir augum sér

Mexíkóskur maður, sem hyggst setja heimsmet í chilipiparáti, er svo ónæmur fyrir styrk belgjanna að hann úðar þeim í sig eins og hverju öðru sælgæti. Hann gengur jafnvel svo langt að kreista safann úr þeim yfir augunum á sér.

Þeir sem meðhöndlað hafa chili-pipar vita vel hversu ætandi hann getur verið. Örlítill biti á tunguna framkallar óslökkvandi þorsta og ekki þarf að hafa mörg orð um hvernig það er að fá pipar í augun. Manuel Quiroz, 54 ára leigubílsstjóri frá Mexíkóborg, virðist hins vegar með öllu ónæmur fyrir þessum óþægindum því hann getur hesthúsað piparinn og nuddað vökvanum úr honum yfir líkamann án þess að kenna sér nokkurra óþæginda. Þegar hann er í stuði leikur hann sér meira segja að því að kremja piparinnar þannig að safinn leki niður í augun á honum. Mexíkóar borða allra þjóða mest af chilipipar en mörgum þeirra þykir engu að síður hér fulllangt gengið.

Quiroz stefnir að því að komast í Heimsmetabókina fyrir þennan furðulega hæfileika og miðað við þessi tilþrif verður að teljast líklegt að hann nái því takmarki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×