Innlent

Metár í fíkniefnaupptöku

Tollgæsla í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Tollgæsla í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. MYND/Guðmundur Þór Stefánsson

Tollgæsla á landinu lagði árið 2006 hald á mesta magn fíkniefna sem fundist hefur á einu ári við landamæraeftirlit. Fundust 43,5 kg af amfetamíni, 8,3 kg af kókaíni og 21,6 kg af kannabisefnum auk lítils magns heróíns en það efni hefur ekki fundist áður við fíkniefnaeftirlit tollgæslu hérlendis.

Umtalsverðust er aukningin í haldlagningu amfetamíns en um er að ræða tíföldun frá árinu 2005 og fjórföldun frá 2004 en þau rúmlega 11 kg sem þá fundust voru á þeim tíma mesta magn efnisins sem tollgæsla hafði fundið á einu ári. Aukið magn kókaíns vekur ekki síður athygli en 8,3 kg af efninu er tífalt það magn sem fannst 2005 og tæpum þremur kg meira en árið 2004 sem var metár.

 

Ofangreind fíkniefni fundust öll við eftirlit tollgæslu í Reykjavík, á Keflavíkurflugvelli og Seyðisfirði og var í sumum tilvikum um að ræða samstarf embættanna og lögreglu, bæði hvað varðar aðstoð fíkniefnaleitarhunda og tollvarða. Margvíslegar ástæður leiddu til fundar efnanna og má þar nefna áhættugreiningarvinnu tollgæslu, upplýsingar frá lögreglu, ábendingar frá almenningi og reglubundið eftirlit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×