Innlent

Forsetahjónin heimsækja Ártúnsskóla

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. MYND/Hörður

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú munu heimsækja Ártúnsskóla á morgun, mánudaginn 12. mars. Ártúnsskóli hlaut Íslensku menntaverðlaunin árið 2006 í flokki skóla sem sinnt hafa vel nýsköpun og farsælu samhengi í fræðslustarfi en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem að forsetaembættið sendi frá sér í dag.

Nemendur, skólastjóri og kennarar Ártúnsskóla taka á móti forsetahjónunum kl. 10:30 í fyrramálið. Í kjölfarið tekur við dagskrá á sal skólans þar sem nemendur flytja tónlist og kynna efnisþætti heimsóknarinnar.

Forsetahjónum verður síðan boðið að fara um deildir skólans og kynna sér kennsluhætti sem og aðbúnað og viðhorf nemenda. Kl. 11:50 verður síðan sérstök dagskrá á sal skólans þar forseti mun ávarpa nemendur og svara spurningum þeirra, sönghópur nemenda syngur og fulltrúar frá FUÁ segja frá skólanum.

Dagskrá heimsóknar forsetahjóna í Ártúnsskóla lýkur með því að nemendum, kennurum, starfsfólki og gestum er boðið að þiggja veitingar. Áætlað er að heimsókninni ljúki kl. 12:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×