Innlent

Elding ástæða tugmilljóna tjóns

Á bílunum sjást för eftir vatnið.
Á bílunum sjást för eftir vatnið. MYND/Frikki
Svo virðist sem að eldingu hafi lostið niður í loftlínur á milli Kolviðarháls og Geitháls og ollið skammhlaupi í háspennukerfi Landsnets. Atvikið virðist hafa haft áhrif á búnað hjá Reykjavíkurborg sem og álverunum á Grundartanga og í Straumsvík. Samkvæmt því sem Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, sem rekur dreifikerfi Landsvirkjunar, segir á það ekki að gerast undir eðlilegum kringumstæðum. Hvers vegna eldingin hafði þessi áhrif verður rannsakað eftir helgi.

Talið er að þetta sé ástæða þess að tvö þúsund tonn af vatni flæddu inn í kjallara fjölbýlishúss við Sólvallagötu í Vesturbæ Reykjavíkur í nótt. Þar er sjálfvirkur dælubúnaður en svo virðist sem honum hafi slegið út með þeim afleiðingum að vatnshæð í þúsund fermetra bílakjallara náði einum og hálfum metra og olli tugmilljóna króna tjóni.

Og það voru ekki bara álver og íbúar í Vesturbænum sem fundu áþreifanlega fyrir áhrifum eldingarinnar. Íbúar í Árbæjarhverfi í Reykjavík hafa verið án heitavatns í allan dag. Lokað var fyrir aðalæðina inn í hverfið, eftir að veikur punktur í henni gaf sig vegna þeirra snöggu þrýstingsbreytinga urðu í henni þegar að dælur gáfu sig og hófu svo aftur starfsemi. Viðgerðir standa nú yfir og samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni er vonast til að hægt verði að hleypa vatni í æðina fyrir klukkan sjö í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×