Innlent

Saksóknari og Samkeppniseftirlitið gegn breytingartillögum Sjálfstæðismanna

Saksóknari efnahagsbrota segir í bréfi til efnahags og viðskiptanefndar að breytingar sem sjálfstæðismenn vilja gera á nýju frumvarpi til samkeppnislaga, hefðu bein áhrif á mál olíuforstjórana sem er fyrir dómstólum. Þetta kemur fram í bréfi hans til efnahags og viðskiptanefndar, þar sem hann leggst gegn breytingunum.

Samkeppniseftirlitið varar einnig við þeim. Nái þær fram að ganga, þarf að sanna stórfellt gáleysi eða skýran ásetning til að hægt sé að sakfella einstaklinga í samráðsmálum. Óbreytt hefur frumvarpið ekki áhrif í máli olíuforstjórana, þar sem einungis má taka tillit til nýrra laga sem sett eru eftir að verknaður er framinn, ef þau eru sakborningum til hagsbóta.

Saksóknari telur að sönnunarbyrðin yrði almennt erfiðari í slíkum málum verði frumvarpinu breytt. Ástæðan sem hann tilgreinir er að eftir núgildandi lögum er einfalt gáleysi nægjanlegt til að menn sæti refsiábyrgð, en ef breytingar sem gera ráð fyrir stórfelldu gáleysi verða að lögum gildir það um meðferð olíumálsins einnig.

Undir þetta tekur Lúvðik Bergvinsson þingmaður Samfylkingarinnar í nefndinni og segir breytingarnar meðal annars geta valdið því að ákæruvaldið þurfi að endurskoða grundvöll ákæru í máli forstjóra olíufélaganna. Hann segist spyrja sig afhverju sjálfstæðismenn gangi svona hart fram í málinu vitandi hvaða afleiðingar það geti haft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×