Erlent

Sögulegt samkomulag um flugsamgöngur í höfn

Frá undirritun samkomulagsins í kvöld.
Frá undirritun samkomulagsins í kvöld. MYND/AFP

Bandaríkin og Evrópusambandið skrifuðu í dag undir tímamótasamning í flugmálum. Hann leyfir flugfélögum að fljúga frá hvaða flugvelli sem er í Evrópu til hvaða flugvallar sem er í Bandaríkjunum og öfugt. Engar takmarkanir verða á fjölda flugferða, hvers konar flugvélar verða notaðar eða hvaða leiðir verður flogið.

Hingað til hafa flugfélög þurft að glíma við takmarkanir í þessum málum og er búist við því að verð á flugi frá Evrópu til Bandaríkjanna eigi eftir að lækka eitthvað. Jacques Barrot, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði þetta í yfirlýsingu í kvöld.

Lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur þegar hafið athuganir á flugi frá Dublin, Frankfurt og Barcelona til New York, Dallas og San Francisco. Virgin Atlantic ætlar sér að bæta verulega við sig á þessum leiðum og ætlar sér að hefja flug til Bandaríkjanna frá París, Zurick og fleiri borgum innan nokkurra ára. Þá er búist við því að stóru flugfélögin, British Airways, Air France-KLM og Lufthansa muni stækka net sitt verulega.

Sumir hafa þó bent á að nýja samkomulagið muni aðallega hagnast evrópskum flugfélögum þar sem þau bandarísku vilji helst auka við ferðir sínar til núverandi áætlunarstaða.

Næst á dagskrá mun vera að ræða eignarhald á flugfélögum og leyfa erlendar fjárfestingar. Bandarískir aðilar hafa reynt að koma í veg fyrir að erlendir aðilar fjárfesti í þarlendum flugfélögum þar sem þau óttast að störf muni tapast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×