Innlent

Stjórnvöld neita að taka ábyrgð á vímuefnasjúklingum

Stjórnvöld stinga höfðinu í sandinn og neita að taka ábyrgð á hörmungarsögu Byrgisins, segir geðlæknir sem fyrstur reyndi að vekja athygli Landlæknis á kynferðismisnotkun ungra kvenna sem dvöldust í Byrginu.

Hann segir nöturlegt að þessi viðbrögð stjórnvalda komi á sama tíma og SÁÁ sé að fara á hausinn vegna tregðu stjórnvalda til að greiða fyrir meðferð áfengis- og fíkniefnasjúklinga. Yfirvöld hafi skipulega lagt niður allar aðrar meðferðarstofnanir fyrir þetta fólk og vísi þeim á náðir trúfélaga.

Börnin sem sjúklingar í Byrginu eignuðust með starfsmönnum þar eru allt að tíu talsins. Mæðurnar eru flestar mjög veikar og fengu ekki þá aðstoð sem þær sóttust eftir með dvölinni heldur sukku dýpra í neyslu og örvæntingu.

Pétur Hauksson geðlæknir sem reyndi árangurslaust að vekja athygli landlæknis á málinu árið 2002, krefst þess að stjórnvöld axli ábyrgð á börnunum og mæðrum þeirra. Hann segir þetta brot á lögum um heilbrigðisþjónustu og mætir fyrir Félagsmálanefnd alþingis á morgun ásamt Landlækni en þar verður rætt um aðgerðir til að bregðast við vanda þessara kvenna sem og annarra fyrrum skjólstæðinga Byrgisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×