Erlent

Snjóþungt víða um Evrópu

Vetur konungur hefur farið hamförum víða um Evrópu í dag. Snjóað hefur ótæpilega í Belgíu, Bretlandi og Hollandi og hefur það haft áhrif á samgöngur í löndunum, en ekki síður til þeirra og frá.

Umferð hefur gengið hægt og illa víða á Bretlandseyjum í dag vegna snjóþyngsla. Fjölda flugvalla var lokað um tíma. Vél Iceland Express til Stansted-flugvallar í Lundúnum var beint til Manchester en síðan flogið á áfangastað rétt fyrir hádegi. Við það tafðist síðdegisflug félagsins til Englands. British Airways aflýsti ferðum sínum hingað og héðan í dag. Ekki hafa þó orðið tafir á ferðum Icelandair til og frá Heathrow.

Lestarferðir á Bretlandseyjum hafa tafist og hefur lögregla hvatt Breta til að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Fjölmörgum skólum var lokað í dag og spáð allt að fimmtán sentímetra jafnföllnum snjó víða.

Þegar úrkoma kemur Íslendingum á óvart í byrjun vetrar hvert ár bölva ökumenn samferðamönnum sínum oft og segja þá varla kunna að aka í snjó. Ástandið virðist lítið betra í Bretlandi þegar snjóar.

Dominic McLeman hjá breska vegaeftirlitinu segir að sjaldnast snjói á Bretlandi og því séu úrræði fá og tæki af skornum skammti. Hann telur fólk ekki vant að aka í svona veðri og því ekki nægilega vakandi. Fólk telji einfaldlega að það geti ekið um miðjan vetur eins og á sumardegi."

En það snjóaði ótæpilega víðar en á Bretlandseyjum í dag. Í Hollandi var fannfergið sem aldrei fyrr. Umferðaröngþveiti skapaðist og lestarferðir lágu niðri. Víðar var allt að tíu sentímetra jafnfallinn snjór.

Í Belgíu snjóaði ekki síður. Á meðan aðrir reyndu að berja sér leið til vinnu stöldruðu aðrir við og tóku myndir. Mustaffa er borgarstarfsmaður í Brussel. Hann segir þetta óskaveður barna. Þau komi með foreldrum sínum eða kennurum í garða og leiki sér og skemmti. Það geri þeim gott. Það sé vissulega kalt en fólk ætti ekki að kvarta yfir veðrinu. Þegar heitt sé í veðri kvarti fólk yfir hitanum, þegar það sé kalt kvarti það yfir kuldanum og þegar rigni fari það ekki að heiman. Réttast sé að njóta allra árstíðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×