Erlent

Leynifangelsi CIA í Evrópu

Óli Tynes skrifar
Ein af fangaflutningavélum CIA á Reykjavíkurflugvelli.
Ein af fangaflutningavélum CIA á Reykjavíkurflugvelli.

Rannsóknari Evrópuráðsins segist hafa sannanir fyrir því að Evrópuríki hafi leyft bandarísku leyniþjónustunni CIA að reka leynifangelsi fyrir meinta hryðjuverkamenn. Svissneski þingmaðurinn Dick Marty segist hafa sannanir fyrir því að slík fangelsi hafi verið bæði í Póllandi og Rúmeníu. Hann sakar Þjóðverja og Ítali um að hafa reynt að halda leyndum upplýsingum um fangaflutningana.

Marty hefur stýrt 19 mánaða rannsókn á fangaflutningunum fyrir Evrópuráðið. Hann kynnir skýrslu sína þar um kl. 12 á hádegi í dag. Í skýrslunni segir hann meðal annars að Bandaríkin hafi komið sér upp alheimsneti leynifangelsa, bæði í Evrópu, Asíu og Mið-Austurlöndum.

George Bush staðfesti í september að CIA hefði komið sér upp leynifangelsum en nefndi engin lönd. Þá neitaði hann því að fangarnir væru pyntaðir. Fangaflutningavélar CIA hafa víða haft viðkomu á ferðum sínum, meðal annars á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×