Erlent

Castro byrjaður að blogga

Óli Tynes skrifar
Fidel Castro, forseti Kúbu.
Fidel Castro, forseti Kúbu.

Fidel Castro, er ekki alveg risinn upp af sjúkrabeðinu en hann er byrjaður að blogga í dagblaðinu Granma, sem er málgagn kúbverska kommúnistaflokksins. Varla kemur á óvart að í hans fyrsta bloggi skammar hann Bandaríkin blóðugum skömmum. Hann fjallar um áætlun Bandaríkjamanna um etanol framleiðslu til að knýja bíla, en til framleiðslu þess er notað korn sem ella færi til manneldis.

Castro segir að þetta uppátæki Bandaríkjamanna munu auka hungur meðal hinna fátæku í heiminum. Átta mánuðir eru nú liðnir frá því Castsro seldi völd sín í hendur Raoul bróður sínum, áður en hann gekkst undir mikla skurðaðgerð. Kúbverjar eru hættir að velta því fyrir sér hvort Castro lifi eða deyi, nú velta þeir því fyrir sér hvenær og hvernig hann muni fyrst koma fram opinberlega.

Kúbverskir embættismenn segja að leiðtoganum fari stöðugt fram og að það sé aðeins tímaspursmál hvenær hann taki aftur við forsetaemættinu. Bandarískir fræðingar í málefnum Kúbu og Castros, draga þó í efa að hann muni taka jafn ríkan þátt í stjórn landsins og fyrir veikindin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×