Erlent

Neyðarkall frá Karolinska -læknar þustu að úr öllum áttum

Karolinska sjúkrahúsið í Huddinge.
Karolinska sjúkrahúsið í Huddinge.

Neyðarástand skapaðist þegar allt rafmagn fór af Karólinska háskólasjúkrahúsinu í Huddinge, í Svíþjóð í gær. Sérstaklega átti það við um gjörgæsludeild fyrir nýfædd börn sem voru í súrefniskassa. Vararafhlöðurnar þar tæmdust á aðeins fimmtán mínútum. Sent var út neyðarkall um neyðarboðleiðir sjúkrahússins og læknar og hjúkrunarfólk þusti að úr öllum áttum til þess að halda súrefniskössunum gangandi með handdælum.

Rafmagnsleysið stóð í rúma klukkustund, en orsök hennar reyndist bilun í kapli sem stöðvaði straum bæði frá hinni almennu orkuveitu og vararafstöð sjúkrahússins. Á meðan á biluninnni stóð reyndi verulega á ímyndunarafl hjúkrunarliðsins við að halda viðkvæmustu stöðvum sjúkrahússins gangandi.

Var þar gripið til hinna ótrúlegustu ráða. Meðal annars var stórum sjúkrabílum ekið inn á ganga sjúkrahússins og þeir notaðir sem rafstöðvar. Engum sjúklingi varð meint af þessu en stjórn sjúkrahússins hefur fyrirskipað algera endurskoðun á orkumálum. "Eitt stærsta neyðarsjúkrahús Svíþjóðar á ekki að geta orðið rafmagnslaust í heila klukkustund," segir Svante Baehrendtz, yfirlæknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×