Innlent

Innbrot á Tangarhöfða

Bíræfnir þjófar stálu rándýru nýju bifhjóli á verkstæði á Tangarhöfða í Reykjavík um helgina og settu það inní sendiferðabíl fyrir utan verkstæðið og námu bæði hjól og bíl á brott. Eigandinn segir tjónið nema um tveimur og hálfri milljón króna en sem betur fer sé hann tryggður fyrir tjóninu. Hvorki bíllinn né bifhjólið hafa komið í leitirnar.



Guðleifur Kristinsson eigandi verkstæðisins Vélasport á Tangarhöfða uppgötvaði að brotist hefði verið inn í verkstæðið í aðfaranótt föstudags.. Þegar hann kom til vinnu í gærmorgun var bílskúrshurðin opin upp á gátt og sendibíllinn og bifhjólið horfið. Guðleifur starfar við ýmiss konar viðgerðir og setur saman bifhjól sem hann flytur inn erlendis frá. Hann segir að innbrotsþjófarnir hljóti að hafa verið tveir eða fleiri því talsverð vinna hafi verið að koma bifhjólinu og bílnum út. Hann segir líklegt að innbrotsþjófarnir hafi tekið sér rúma klukkustund í verkið.



Guðleifur segir andvirði bílsins og bifhjólsins vera hátt á þriðju milljón króna fyrir utan tjónið sem innbrotsþjófarnir ollu á húsnæðinu. Hann segir heppnina hafa verið með sér í þetta skiptið. Hann var nýbúinn að tryggja innbúið þó ekkert öryggiskerfi hafi verið til staðar. Guðleifur hefur komið sér upp svefndýnu á miðju verkstæðinu og hyggst sofa þar yfir páskana þangað til öryggiskerfi verður sett upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×