Erlent

Loftslagsbreytingar jafn mikil ógn og stríð

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir loftslagsbreytingar jafn mikla ógn við mannkynið og styrjaldir. Loftslagsmál verði sett á oddinn meðan hann stýri samtökunum. Skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu segir sjö leiðir hugsanlega færar til lausnar á vandanum.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, var ómyrkur í máli þegar hann ræddi loftslagsmál á fundi í New York í gær. Hann sagði stríð enn ógna jarðarbúum enda væri það enn stærsta verkefni samtakanna að koma í veg fyrir og binda enda á átök víða um heim. Hann sagði hins vegar hættur af völdum stríðsátaka að minnsta kosti jafn mikla og hættuna af loftslagsbreytingum og hlýnun jarðar.

Ban Ki-moon sagði að áhersla yrði lögð á loftslagsmál á þeim fimm árum sem hann yrði í embætti. Hann sagði mikilvægt að alþjóðasamfélagið kæmi sér saman um nýja stefnumörkun í baráttunni við hlýnun jarðar eftir að Kyoto-bókunin um losun gróðurhúsalofttegunda rennur út 2012. Ban Ki-moon segir að alvarlegar afleiðingar hlýnunar komi verst niður á fólki í Afríku og á Kyrrahafseyjum þó mengunin sé minnst þar.

Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri hjá Umhverfisráðuneytinu, segir mögulega sjö leiðir færar til að draga úr áhrifum losunar gróðurhúsalofttegunda og síðan snúa þeim við. Þar sé um að ræða minni metanlosun, meiri orkunýtni, notkun kolefnissnauðara eldsneytis og endurnýjanlegrar orku, stöðvun skógareyðingar og notkun kjarnorku í stað kola.

Hugi segir að með markvissum aðgerðum sé hægt að ná árangri án þess að bíða eftir miklum tæknibyltingum. Lausnirnar sem hann nefni séu þó misgóðar, enda vilji fólk frekar endurnýjanlega orku en kjarnorku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×