Viðskipti erlent

Olíuverð við 59 dali á tunni

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur hækkað nokkuð um helgina og stendur nú í rúmum 59 dölum á tunnu vegna kulda í NA-Bandaríkjunum sem hefur valdið því að eftirspurn eftir olíu til húshitunar hefur aukist til muna.

Verð á hráolíu, sem afhent verður í næsta mánuði, lækkaði um 2 sent á markaði í Bandaríkjunum í dag og stendur nú í 59,02 dölum á tunnu.

Verð á Brent Norðursjávarolíu, lækkaði hins vegar um 6 sent og stendur í 58,35 dölum á tunnu.

Hráolíuverðið hækkaði um tæpa tvö dali á tunnu á föstudag vegna eftirspurnarinnar. Ekki er búist við að veðrið batni á næstunni.

Þá bætir ekki úr skák að starfsmenn olíufélaga sem eru á skrá verkslýðsfélaga í Nígeríu lögðu niður störf í gær. Óttast er að olíuframleiðsla dragist eitthvað saman vegna þessa en það getur ýtt verðinu frekar upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×