Viðskipti innlent

Refresco kaupir pólskan drykkjaframleiðanda

Hollenski drykkjarframleiðandinn Refresco sem FL Group á 49% hlut í tilkynnti í dag að það hefði keypt pólska drykkjarframleiðandann Kentpol. Þetta er fyrsta yfirtaka Refresco í Austur-Evrópu.

Greiningardeild Kaupþings segir í Hálffimmfréttum sínum í dag að kaupverð sé ekki gefið upp. Bent er á að tekjur Kentpol séu um 34 milljónir evra á ári, sem svarar til rétt rúmlega þrír milljarðar íslenskra króna. Til samanburðar nám tekjur Refresco í fyrra um 660 milljónum evra, tæplega 58,7 milljörðum króna.

Segir í Hálffimmfréttum að stefnt sé að því að þrefalda veltu Refresco á næstu 12-18 mánuðum með yfirtökum og samrunum.

Greiningardeildins segir að FL Group eigi sömuleiðis 24,4% hlut í dönsku ölgerðinni Royal Unibrew, sem skráð er á markað í Danmörku. Ölgerðin starfrækir átta bruggverksmiðjur þar á meðal eina í Póllandi. Veltir deildin því upp hvort FL Group sjái fyrir sér samstarf eða sameiningu framangreindra drykkjarframleiðenda í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×