Erlent

Skipulögðu rán og nauðganir á stúlkum

Breskur dómstóll hefur dæmt þrjá menn til langrar fangelsisvistar fyrir að áforma að ræna tveimur stúlkum og nauðga þeim. Mennirnir skipulögðu illvirkið á spjallrás á internetinu.

Málið hefur vakið mikinn óhug í Bretlandi enda eru lýsingarnar á áætlunum mannanna hreint út sagt hrikalegar. Á spjallrásinni ræddu mennirnir, sem eru allir rúmlega fertugir og búa í Lundúnum, um að ræna tveimur systrum, þrettán og fjórtán ára, þegar þær væru á leið í skólann og nota þær svo sem kynlífsþræla. Samhliða þessum óhugnanlegu umræðum skiptust mennirnir á barnaklámmyndum. Skipulagning illvirkisins virtist komin vel á veg og kváðust mennirnir í samskiptum sínum taka morðin á þeim Holly Wells og Jessicu Chapmann frá Soham sumarið 2003 sér til fyrirmyndar.

Þremenningarnir fengu fangelsisdóma á bilinu átta til ellefu ár, bæði fyrir að hafa barnaklám í fórum sínum og samsæri um nauðgun. Sá sem þyngsta dóminn hlaut neitaði allri sök og sagðist sjálfur vera að fletta ofan af barnaníðingum og væri að afla sönnunargagna til þess. Þetta er í fyrsta sinn sem menn eru dæmdir fyrir kynferðisbrot í Bretlandi á grundvelli samræðna á spjallrás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×