Innlent

Kuldaköst að vori heyri sögunni til

Kuldaköst á vorin heyra sögunni til á Íslandi en um leið verður norðanáttin algengari, gangi spár um hlýnun loftslags eftir. Þetta er mat Haraldar Ólafssonar, veðurfræðings, sem segir sumarið lengjast í báða enda en áfram verði kalt yfir hávetur.

Haraldur var gestur í Hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag. Þar sagði hann nýja skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna rýma vel við niðurstöður hans og norskra vísindamanna sem hafa skoðað útreikninga á hlýnun á svæðinu milli Grænlands og Skandinavíu. Sú athugun sýndi að ekki mætti búast við mikið hlýrri vetri á Íslandi í lok aldar.

Haraldur segir að vorið gæti hins vegar orðið töluvert hlýrra. Útlit sé fyrir að kuldaköst á vorin fjari nánast úr.Seinni hluti vetrar og á vorin verði hlýrra en nú, en ekki mikið hlýrra. Svo hlýni töluvert á haustin.

Haraldur segir að reynt hafi verið að meta hitabreytingar í einstökum landshlutum á Íslandi og áhrif þeirra. Samkvæmt því verði norðanátt algengar, sérstaklega að vetrarlagi, sem þýði meiri úrkomu á Norður- og Austurlandi, ekki síst til fjalla, og það auki snjóflóðahættu.

Á Suðvesturlandi sé útlit fyrir heldur minni vetrarúrkomu og þetta komi skýrt fram í reikningum sem Haraldur og samstarfsmenn hans hafi skoðað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×