Innlent

Týndir þú jólapeningunum í Kringlunni?

Peningarnir fundust á bílastæði Kringlunnar.
Peningarnir fundust á bílastæði Kringlunnar.

„Við vorum í Kringlunni í gær sem er ekki í frásögur færandi nema það að við fundum peninga á bílastæðinu sem við vildum gjarnan koma til skila," segir kona sem hafði samband við Vísi í dag.

Hún var með fjölskyldunni að versla jólagjafir þegar hún rekur augun í peningana en hún vill ekki gefa upp hversu há upphæðin er. „Ég vil ekki gefa upp of miklar upplýsingar svo það hafi ekki 500 manns samband og þykist eiga peningana," segir konan sem fann peningana á milli 17:00 og 18:00 í gær.

Hún hefur nú þegar haft samband við þjónustuborðið og öryggisgæslu Kringlunnar en engin kannast við neitt þar.

„Ef einhver kannast við að hafa týnt peningum þá væri gott ef hann hefði samband. Viðkomandi þarf að geta gefið upp hversu mikið þetta er og hvernig þetta er samsett en þetta er allt í seðlum. Einnig væri gott ef viðkomandi gæti gefið upp á hvaða bílastæði þetta var," segir konan sem hugsaði aldrei um að stinga peningunum í vasann sjálf.

„Ég efast ekki um að einhverjir hefðu gert það en það hvarflaði ekki að mér."

Ef einhver kannast við að eiga þessa peninga er hann beðinn um að senda póst á netfangið ritstjorn@visir.is með framangreindum upplýsingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×