Viðskipti erlent

Ný tækni margfaldar geymslugetu harðra diska

Hitachi ætlar að framleiða harðan disk fyrir ferðatölvur sem hefur eitt þúsund gígabæta minni.
Hitachi ætlar að framleiða harðan disk fyrir ferðatölvur sem hefur eitt þúsund gígabæta minni. MYND/AFP

Japanska fyrirtækið Hitachi hefur fundið leið til að margfalda geymsluminni harðra diska í tölvum. Því er spáð að tæknin muni fimmfalda núverandi geymslugetu tölvudiska.

Aðferðin byggir á tækni sem nóbelsverðlaunahafarnir í eðlisfræði, Albert Fert og Peter Grunberg, fundu upp fyrir tíu árum. Þá olli tæknin byltingu í geymsluminni harðra diska en hefur á undanförnum árum þurft að víkja fyrir nýrri tækni. Vísindamenn hjá Hitachi hafa hins vegar fundið leið til að endurbæta tæknina og með því hefur þeim tekist að margfalda geymslugetu tölvudiska.

Segjast vísindamennirnir geta nú komið fyrir allt eitt þúsund gígabæta minni á svæði sem ekki er stærra en 6,4 fersentimetrar. Miðað við núverandi tækni er ekki hægt geyma meira en 200 gígabæt á samsvarandi svæði.

Forsvarsmenn Hitachi fyrirtækisins segja að með tækninni sé hægt að framleiða harðan disk með fjögur þúsund gígabæta geymsluminni. Á þessum disk væri hægt að geyma rúmlega milljón lög. Áætlað er að tæknin muni verða aðgengileg almenningi árið 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×