Allan Borgvardt, besti leikmaður Íslandsmótsins árin 2003 og 2005, fékk 225 þúsund krónur í mánaðarlaun á síðasta ári.
Eins og áður hefur verið greint frá á Vísi fá flestallir íslenskir knattspyrnumenn í Noregi hærri laun en Borgvardt sem leikur með norska 1. deildarliðinu Bryne.
Aðeins Birkir Bjarnason, nítján ára leikmaður hjá Viking, fær lægri laun eða um 207 þúsund krónur.
Upplýsingar um eignir, tekjur og skattgreiðslur í Noregi má nálgast á norskum vefmiðlum, til að mynda Nettavisen.
Fréttaflutningur af launakjörum knattspyrnumanna á Íslandi sýnir að leikmaður í þeim gæðaflokki sem Borgvardt er í getur fengið mun hærri greiðslur hér á landi.
Jóhannes Þór Harðarson, leikmaður Start, er með nærri tvöfalt hærri launagreiðslur en Borgvardt.
Kristján Örn Sigurðsson, Brann, og Veigar Páll Gunnarsson eru með þrefalt hærri laun og þeir Stefán Gíslason (fyrrum leikmaður Lyn) og Ólafur Örn Bjarnason (Brann) með enn hærri laun.
Launahæsti Íslendingurinn, Árni Gautur Arason (Vålerenga), er með rúmlega fjórföld laun Allan Borgvardt.