Innlent

Varðskip með bilað loðnuskip í drætti

Varðskip Landhelgisgæslunnar er nú með loðnuskipið Antares VE-18 í drætti, á leið til Akraness. Um miðjan dag í gær varð vélarbilun í aðalvél loðnuskipsins um 6 sjómílur norður af Óðninsboða á Húnaflóa og rak skipið í átt að boðanum. Skipið var á leið til Þórshafnar á Langanesi með um 1000 tonn af loðnu.

Togarinn Frosti var næstur Antares þegar vélin bilaði og hélt strax á vettfang, en ekkert varðskip var á svæðinu. Einnig var þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF send áleiðis á vettfang til öryggis.

Skömmu áður en Frosti og LÍF komu á staðinn tókst skipverjum á Antares að koma vél skipsins í gang til bráðabirgða og gat því skipið forðað sér á frían sjó frá boðanum. Veður á svæðinu var þá norðaustan 12-15 m/sek. og talsverður sjór.

Þar sem ekki tókst fullnaðarviðgerð á aðalvél Antares var ákveðið að Frosti tæki skipið í tog og drægi skipið til móts við varðskip Landhelgisgæslunnar. Uppúr kl.0800 í morgun mættust skipin norður af Vestfjörðum og tók varðskipið við drætti skipsins og dregur það nú áleiðis til Akraness. Þangað eru skipin væntanleg á morgun.

Veður á svæðinu er þokkalegt, norðaustan 10-15 met/sec. Spáð er minnkandi vindi þegar líður á daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×