Handbolti

HK upp að hlið Valsmanna í DHL-deildinni

Valdimar Þórsson og félagar hans í HK gefast ekki upp í baráttunni við Valsmenn á toppi DHL-deildarinnar. Valdimar skoraði 12 mörk í dag.
Valdimar Þórsson og félagar hans í HK gefast ekki upp í baráttunni við Valsmenn á toppi DHL-deildarinnar. Valdimar skoraði 12 mörk í dag.

HK komst upp að hlið Valsmanna á toppi DHL-deildar karla þegar liðið bar sigurorð af Akureyri í Digranesi í dag, 31-23. Framarar unnu öruggan sigur á ÍR, 43-34, og Stjarnan sigraði Fylki í Garðabænum, 27-24, í öðrum leikjum dagsins.

HK hafði mikla yfirburði frá fyrstu mínútu í leiknum í dag og leiddi með fimm mörkum í hálfleik, 15-10. Í síðari hálfleik bætti liðið smám saman við forystu sína og tryggði sannfærandi sigur. Valdimar Þórsson var markahæstur hjá HK með 12 mörk en Magnús Stefánsson var frábær í liði gestanna og skoraði 15 mörk.

HK og Valur hafa bæði hlotið 21 stig og eru á toppnum en Stjarnan er í þriðja sæti með 18 stig. Íslandsmeistarar Fram eru komnir upp í fjórða sætið með 15 stig eftir sigurinn á ÍR í dag, en ÍR-ingar eru sem fyrr í neðsta sæti deildarinnar með aðeins fjögur stig. Fylkir er með níu stig í næst neðsta sæti, þremur stigum minna en Haukar og Akureyri, sem koma í 5. og 6. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×