Innlent

Jón Ásgeir, Hannes og Þorsteinn á fund forsætisráðherra

Breki Logason skrifar
Hannes Smárason, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Þorsteinn M Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson.
Hannes Smárason, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Þorsteinn M Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson.

Þrír af valdamestu mönnunum í íslensku viðskiptalífi sátu fund með Geir H. Haarde forsætisráðherra þann 16.nóvember síðast liðinn.

Jón Ásgeir Jóhannesson, Hannes Smárason og Þorteinn M. Jónsson röltu inn í ráðuneytið seinni part föstudagsins 16.nóvember. Þar hittu þeir fyrir forsætisráðherra og ræddu orkumál. Þremenningarnir óskuðu sjálfir eftir fundinum en ekki hefur fengist staðfest hvað nákvæmlega var rætt á fundinum.

Þetta var daginn fyrir brúðkaup Jóns Ásgeirs og Ingibjargar Pálmadóttur. Málefni FL Group voru ekki til umræðu. Þetta fékkst staðfest hjá ráðuneytinu í dag.

Geir H Haarde hitti þremmenningana daginn fyrir brúðkaup Jóns Ásgeirs.

Það er ekki á hverjum degi sem Jón Ásgeir fer á fund forsætisráðherra en frægt er þegar hann hitti Davíð Oddsson í ráðuneytinu forðum daga. Þá óskaði Davíð sjálfur eftir fundi með Jón Ásgeiri þar sem mikil umræða um Baug var í samfélaginu. Sá fundur var undanfari þess sem í dag er oftast kallað Baugsmálið.

Ekki náðist í þremmenningana til þess að fá frekari útlistun á efni fundarins. Forsætisráðuneytið vildi ekki gefa nánari upplýsingar um tilefni né efni fundarins, eingöngu hefðu verið rædd orkumál en málefni FL Group hefðu ekki verið rædd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×