Erlent

Verulegar líkur á hryðjuverkaárás í Þýskalandi

Jónas Haraldsson skrifar
MYND/AFP
Samkvæmt fréttum á vefsíðu ABC fréttastöðvarinnar er veruleg hætta á hryðjuverkaárás á bandarísk skotmörk í Þýskalandi. Talið er að hryðjuverkamennirnir ætli sér að ráðast gegn herstöðinni Patch Barracks, með því takmarki að valda sem mestum mannskaða.

Bandarísk yfirvöld hafa sett enn fleiri löggæslumenn um borð í bandarískar flugvélar sem fljúga um Þýskaland til þess að bregðast við hættunni. Háttsettur yfirmaður í bandaríska hernum sagði í samtali við ABC fréttastofuna að hættan væri mjög mikil.

„Það eru um 300 til 500 manns sem eru grunaðir um hryðjuverkastarfsemi tengda al-Kaída í Þýskalandi," sagði fyrrum hershöfðinginn Andrew Platt „Í lýðræðislegu ríki eins og Þýskalandi er ekki hægt að handtaka fólk eingöngu vegna þess að það er grunað um hryðjuverkastarfsemi."

Mennirnir sem skipulögðu hryðjuverkin í Bandaríkjunum þann 11. september 2001 störfuðu í Hamborg í Þýskalandi og skipulögðu árásina þar. Þýska lögreglan hefur þegar beðið stjórnvöld um meiri völd til þess að geta tekist á við þá ógn sem stafar af hryðjuverkahópum.

Einhverjar fréttir hafa borist af því að grunaðir hryðjuverkamenn hafi verið að fylgjast með Patch Barracks. Talsmaður herstöðvarinnar sagðist samt ekki kannast við það. Engu að síður hafa öryggisráðstafanir verið auknar til muna við herstöðvar Bandaríkjamanna í Þýskalandi, samkvæmt tilmælum sendiráðs Bandaríkjanna þar í landi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×