Innlent

Vonast til að klára atkvæðatalningu á minna en tólf klukkustundum

MYND/GVA

Reiknað er með því að búið verði að telja öll atkvæði í kosningunum á morgun fyrir klukkan fjögur aðfaranótt sunnudags. Formaður kjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis norður segist þó vona að hægt verði að ljúka talningu mun fyrr.

„Fyrstu tölur koma um leið og kjörstöðum lokar um klukkan tíu annað kvöld," sagði Þórunn Guðmundsdóttir, formaður kjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis norður, í samtali við Vísi. „Við vonumst til að verða búin að telja öll atkvæði í kringum klukkan tvö um nóttina. En þá þarf allt að ganga eins og í sögu. Síðustu tölur ættu þó ekki að koma mikið seinna en klukkan fjögur um nóttina."

Byrjað verður að telja atkvæði upp úr klukkan sex á morgun eða fjórum klukkustundum áður en kjörstöðum lokar. Sé miðað við að talningu ljúki um klukkan fjögur um nóttin er ljóst að það getur tekið um tólf klukkustundir að telja öll atkvæði.

Alls eru 87.173 á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og hefur kjósendum fjölgað um tvö þúsund frá síðustu alþingiskosningum.

Á landinu öllu eru 221.368 manns á kjörskrá. Talningamenn á landinu þurfa því samanlagt að telja 175 atkvæði á mínútu sé reiknað með 100 prósent kjörsókn og að talningu ljúki á 12 klukkustundum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×