Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, vottar fjölskyldu Benazir Bhutto og pakistönsku þjóðinni einlæga samúð sína í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér nú fyrir stundu. Ólafur segir morðið vera hörmulega áminningu um fórnirnar sem einatt eru færðar þegar reynt er að festa lýðræði í sessi. Bhutto var myrt í morgun.
„Benazir Bhutto var virtur leiðtogi sem varaði eindregið við hryðjuverkum og öfgaöflum. Hún var hámenntuð og víðsýn; því kynntist ég vel í samræðum okkar á fyrri árum, geislaði af orku og baráttukrafti. Hún hafði djúpan skilning á sameiginlegum hagsmunum Vesturlanda og ríkja sem aðhyllast múhameðstrú. Með dauða hennar hafa sáttaöflin misst öflugan forystumann," segir Ólafur Ragnar.