Erlent

Blóð á veggjum hótelherbergisins

Guðjón Helgason skrifar
Portúgalskir miðlar greina frá því í dag að blóð hafi fundist á veggjum hótelherbergis þaðan sem breska stúlkan Madeleine McCann hvarf fyrir rúmum þremur mánuðum. Foreldrar stúlkunnar segjast fullvissir um að stúlkan hafi verið numin þaðan lifandi á brott.

Nærri hundrað dagar eru frá því að hin þriggja ára gamla Madeleine hvarf af hótelherbergi á sumardvalarstaðnum Praia da Luz í Portúgal. Þar hafði hún verið skilin ein eftir sofandi með tveimur yngri systkinum sínum meðan foreldra þeirra snæddu kvöldverð á nálægum veitingastað.

Sérstakir leitarhundar bresku lögreglunnar fundu blóð í herberginu í síðustu viku en sérfræðingar portúgölsku lögreglunnar höfðu áður ekki komið auga á það við hefðbundna leit.

Breska lögreglan hefur undanfarnar vikur farið yfir gögn í málinu og þess vegna var leitað aftur á hótelherberginu. Einnig var leitað á heimili Roberts Murats, sem hefur legið undir grun í málinu. Engin ný gögn fundust þar. Murat er Breti, búsettur í Portúgal.

Að sögn portúgalskra miðla hafa breskir rannsóknarmenn kallað lögreglumenn morðdeilda til rannsóknarinnar og af því dregin sú ályktun að stúlkan hafi hugsanlega verið myrt - jafnvel á hótelherberginu.

Foreldrar Madeleine sögðu hins vegar í sjónvarpsviðtali í dag að þau væru sannfærð um að dóttir þeirra væri enn á lífi. Gerry McCann, faðir hennar, sagðist viss um að Madeleine hafi verið á lífi þegar hún var numin á brott en auðvitað ómögulegt að segja til um hvað hafi gerst síðan þá með nokkurri vissu. Kate, móðir Madeleine, sagði portúgölsku lögregluna enn tala um leit að lifandi stúlku og það gefi þeim hjónunum von.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×