Erlent

Tamíl-tígrar gerðu loftárás

Upplýsingafulltrúi norræna vopnahléseftirlitsins á Srí Lanka segir ekki of djúpt í árina tekið að segja landið ramba á barmi borgarastyrjaldar. Þrír týndu lífi og 16 særðust í loftárás Tamíl-tígra á herflugvöll í höfuðborginni Colombo. Loftárásin er sú fyrsta sem tígrarnir gera.

Tvær litlar flugvélar voru notaðar í árásinni og vörpuðu þær tveimur sprengjum á stæði þar sem flugvélar og herþyrlur eru geymdar. Alþjóðaflugvellinum í Colombo, sem stendur við herflugvöllinn, var lokað tímabundið eftir árásina, en hann varð þó ekki fyrir skemmdum. Í yfirlýsingu frá tígrunum segir að stjórnarherinn megi búast við álíka árásum í nánni framtíð.

Þorfinnur Ómarsson, upplýsingafulltrúi norræna vopnahléseftirlitsins, segir þetta bæta við fleiri óvissuþáttum í átök stjórnarhersins og tígranna.

Mikið hefur verið um átök í landinu en vopnahlé hefur þó verið í gildi þar síðan í febrúar 2002. Þrátt fyrir það hafa rúmlega fjögur þúsund manns týnt lífi í átökum síðustu fimmtán mánuði. Þorfinnur segir ekki fjarri lagi að tala um að landið rambi á barmi borgarastyrjaldar. Þorfinnur segir að barist sé á hverjum einasta degi en langmest á takmörkuðum svæðum í landinu.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch vilja að Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna komi að málum á Srí Lanka. Þorfinnur segir að bæta megi slíkri starfsemi við. Hann segir að hins vegar hafi stjórnvöld á Srí Lanka hafnað slíku eindregið og sagt að það kæmi ekki til greina. Þau stjórnmálaöfl sem séu andvíg erlendri íhlutun í landinu hafi ekki bara gagnrýnt Norðmenn fyrir að vera sáttasemjara á Srí Lanka heldur einnig gagnrýnt Sameinuðu þjóðirnar í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×