Erlent

Fyrsti fanginn fyrir endurbættan herrétt

David Hicks, sem er fangi í Guantanamo fangelsi Bandaríkjamanna og ásakaður um að hafa barist gegn þeim í Afganistan, fór í dag fyrir herrétt Bandaríkjamanna. Hicks á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi ef hann verður fundinn sekur. Hann hefur þegar eytt fimm árum í fangelsinu í Guantanamo. Hann er fyrsti fanginn sem fer fyrir hinn nýja dómstól sem notaður í málum gegn föngum í Guantanamo.

Lögfræðingar Hicks fullyrða að engar líkur séu á sanngjarnri málsmeðferð og að þegar sé búið að ákveða niðurstöðu réttarhaldanna. Mannréttindasamtök víða um heim hafa mótmælt fyrirkomulagi þeirra harkalega. Bandaríkin hafa þó samþykkt að leyfa honum að afplána dóm sinn í Ástralíu og hermt er að Hicks hafi íhugað að segjast sekur til þess að komast sem fyrst til Ástralíu.

Hicks heldur því fram að honum hafi verið misþyrmt kynferðislega og að hann hafi verið laminn á meðan hann var í haldi. Bandaríski herinn segir þær fullyrðingar Hicks ekki sannar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×