Erlent

Hóta að sprengja Johnston í loft upp

Jónas Haraldsson skrifar

Hryðjuverkamennirnir sem halda Alan Johnston, fréttamanni BBC, í gíslingu, settu í gær myndband af honum á internetið. Á myndbandinu er Johnston íklæddur sprengjuvesti.

Hann segir að ef einhver ætli sér að reyna að frelsa hann með vopnavaldi verði vestið sprengt. Honum var rænt á Gazasvæðinu þann tólfta mars.

Hópurinn sem hefur Johnston í haldi kallar sig Her Íslam. Hann var algjörlega óþekktur áður en hann rændi Johnston en lengi vel var ekkert vitað hvar hann væri niðurkominn. Hópurinn krefst þess að bresk stjórnvöld sleppi palestínskum klerki, Abu Qatada, sem þau hafa í haldi. Hann er grunaður um tengsl við al-Kaída og er talinn ógna þjóðaröryggi Bretlands.

Johnston var eini erlendi fréttamaðurinn með aðsetur á Gaza-svæðinu. Ránið á honum vakti mikla undrun nær allra aðila. Stjórnvöld og mannréttindasamtök víða um heim hafa krafist þess að hann verði látinn laus. Þá hafa fleiri en 170 þúsund manns skrifað undir áskorun þess efnis á internetinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×