Gengi CSI-vísitölunnar lækkaði um þrjú prósent í kauphöllinni í Sjanghæ í Kína í dag eftir að seðlabanki landsins sagði nauðsynlegt að hækka stýrivexti til að draga úr verðbólgu, spennu í hagkerfinu og magni peninga í umferð.
Gengi vísitölunnar hefur þrefaldast síðastliðið eitt og hálft árið, þar af tvöfaldast frá áramótum. Mikil eftirspurn hefur verið eftir hlutabréfum í Kína og hafa jafnt háskólastúdentar sem eldri borgarar varið sparifé sínu fremur til hlutabréfakaupa en að ávaxta það á hefðbundnum sparifjárreikningi. Varað hefur verið við bólumyndun á hlutabréfamarkaði vegna þessa, sem geti sprungið með alvarlegum afleiðingum.
Kínversk stjórnvöld hafa af þessum sökum gripið til ýmissa ráða til að draga úr eftirspurn á hlutabréfamarkaði, meðal annars með hækkun stimpilgjalda.
Vísitalan stendur nú í 3.929 stigum eftir að hafa verið í methæðum um nokkurt skeið.