Erlent

41 lét lífið í átökum í Pakistan um helgina

Jónas Haraldsson skrifar
Mótmælendu brenna flagg flokks Musharraf, forseta Pakistan, um helgina.
Mótmælendu brenna flagg flokks Musharraf, forseta Pakistan, um helgina. MYND/AFP
Stuðningsmenn æðsta dómara Pakistans, sem rekinn var úr embætti fyrr á árinu, hafa boðað til verkfalls í landinu eftir að 41 lét lífið í átökum í Karachi um helgina.

Yfirvöld hafa bannað samkomur sem fleiri en fimm manns sækja eftir harða götubardaga um helgina. Stuðningsmenn dómarans og stuðningsmenn stjórnvalda tókust þá á. Andstæðingar stjórnvalda í landinu hafa notað deilurnar til þess að reyna að koma sínum málstað á framfæri. Stjórnarandstæðingar ásökuðu flokk Pervez Musharraf, forseta landsins, um að hafa hafið átökin en því neitar hann.

Herinn var sendur út á götur í Karachi í gærkvöldi en tókst ekki að koma á ró í borginni. Jarðarfarir fóru þá fram og urðu enn meiri átök í kjölfar þeirra. Yfirvöld heimiluðu hernum að skjóta á hvern þann sem tók þátt í átökum.

Iftikhar Chaudhry, dómarinn sem var rekinn, ætlaði sér að ávarpa stuðningsmenn sína á laugardaginn en herinn kom í veg fyrir að hann kæmist til Karachi með því að loka vegum inn í borgina. Musharraf neitaði því á laugardaginn að lýsa yfir neyðarástandi og skoraði á landsmenn að sameinast og stöðva ofbeldið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×