Innlent

Sætar stelpur á glugga Geirs

Guðni Ágústsson varaformaður Framsóknarflokksins segir bæði Samfylkingu og Vinstri græna komna á gluggann hjá Geir Haarde til að vera næstsætasta stelpan á ballinu. Hann segir alveg ljóst að Framsóknarflokkur gefi eftir ráðuneyti til Sjálfstæðisflokks, endurnýi flokkarnir samstarf sitt.

Meðan ríkisstjórnarflokkarnir meta hvort grundvöllur sé fyrir endurnýjun samstarfsins þreifa stjórnarandstöðuflokkarnir á möguleikum til að komast upp á milli þeirra.

Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingar, er talinn eindreginn fylgismaður þess að koma flokknum í samstarf með sjálfstæðismönnum. Hann fagnaði Arnbjörgu Sveinsdóttur, þingflokksformanni þeirra í Alþingishúsinu í dag og Össur sást einnig hverfa afsíðis með Einari K. Guðfinnssyni, ráðherra Sjálfstæðisflokksins, en þeir snæddu báðir þar í hádeginu.

Í gær hittust þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon og er talið að þau hafi rætt um vinstri stjórn með þátttöku eða stuðningi Framsóknarflokks. Steingrímur og Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, ræddu svo einslega saman eftir sjónvarpsumræðu á Stöð tvö í gærkvöldi í bílferð á leið í hús Ríkisútvarpsins.

Guðni Ágústsson sýnir vinstra samstarfi hins vegar lítinn áhuga, og minnir á árásir Vinstri grænna á flokkinn.

Og segir Framsóknarflokkinn sætustu stelpuna.

Guðni segir ljóst að Framsóknarflokkurinn verði að gefa eftir ráðuneyti í endurnýjaðri stjórn með Sjálfstæðisflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×