Innlent

Athyglissjúkt andapar í tilhugalífinu

Andarsteggur sem átti leið um Skaftahlíðina beitti afar óvenjulegri aðferð til að ganga í augun á kollu sem var þar skammt hjá. Hann vildi ekkert gefa upp um það hvort aðferðin væri algeng í tilhugalífi anda en svo virðist sem hún hafi borið árangur.

Það var ekki margt sem styggði þennan stegg þar sem hann sat í rólegheitunum á þaki bifreiðar á bílaplani við fréttastofuna í dag.

Ekki langt undan sat kolla sem fylgdist andaktug með steggnum sem sat sem fastast þrátt fyrir ágang fjölmiðlamanna og ljósmyndara.

Ekki er vitað hvað honum gekk til en líklega var hann með þessu háttarlagi sínu að reyna að ganga í augun á kollunni sem horfði á stegginn, hróðug, sitja fyrir hjá ljósmyndaranum. Fréttamaður ákvað að athuga hvort hann gætti veitt eitthvað uppúr honum, en svo varð þó ekki.

Svo virðist sem tilburðir steggsins hafi borið árangur, alltént flaug parið saman á vit ævintýranna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×