Erlent

Bíll Díönu gæti hafa lent í árekstri

Ljósmynd papparazzi ljósmyndara af bíl prinsessunnar skömmu fyrir áreksturinn.
Ljósmynd papparazzi ljósmyndara af bíl prinsessunnar skömmu fyrir áreksturinn. MYND/AFP

Bíllinn sem Díana prinsessa var í þegar hún lést gæti hafa rekist á annan stóran og dökkan bíl þegar hann keyrði inn göngin í París. Þetta eru upplýsingar vitna við réttarrannsókn á dauða Díönu og Dodi Fayed.

Jean-Claude Catheline og eiginkona hans Annick sögðust hafa séð tvo bíla keyra samhliða inn í göngin. Þau heyrðu ískur í hjólbörðum og síðan árekstrarhljóð þegar þau gengu nær undirgöngunum.

Hjónin báru vitni í gegnum myndsendingu frá París en réttarrannsóknin fer fram í London. Þar sögðu þau að um leið og bílarnir hafi horfið þeim sjónum hafi þau heyrt hljóð sem var eins og annar bíllinn hefði rekist á hinn. Þau haldi að það hafi verið rétt áður en bíllinn fór inn í göngin.

Úrdráttur úr upphaflegu lögregluskýrslunni var lesinn við réttinn. Þar höfðu hjónin sagt að strax á eftir fyrra hljóðinu hafi heyrst annað mun, mun hærra og öðruvísi hljóð.

Parið hafði verið úti um kvöldið og var að ganga frá Effel turninum að bíl sínum þegar það varð vitni að atburðinum.

Tengdasonur hjónanna sem var með þeim ásamt dóttur þeirra sagðist hafa tekið eftir stórum dökkum bíl sem keyrði á ofsahraða inn í göngin. Hann hafi sagt eitthvað um að þau væru brjáluð að keyra svona hratt.

Francois Levistre var ökumaður næsta bíls fyrir framan Mercedes Benz bifreiðina. Hann sá atburðina gerast í baksýnisspeglinum. Hann segist hafa séð mótorhjól með sterku hvítu ljósi sem fór fram úr bifreið Díönu skömmu áður en hún missti stjórn og snerist í göngunum. Hann segir farþega á mótorhjólinu þá hafa farið af hjólinu, gengið að bílnum, litið inn og gefið bendingu til ökumanns mótorhjólsins áður en parið keyrði í burtu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×