Erlent

Hunda- og kattamatur innkallaður í Bandaríkjunum

Rottueitur hefur greinst í katta- og hundamat frá framleiðslufyrirtækinu Menu Foods í Bandaríkjunum. 15 kettir og 2 hundar hafa drepist eftir að hafa étið mat frá fyrirtækinu og óttast er að fleiri dýr hljóti sömu örlög.

60 milljón dósir og pokar með hunda- og kattamat frá fyrirtækinu hafa verið innkölluð. Vörurnar eru seldar í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. Ekki er talið að átt hafi verið við dósir og poka frá fyrirtækinu í verslunum. Eitrið hafi borist með einhverju sem notað hafi verið til framleiðslunnar.

Nokkrir gæludýraeigendur hafa þegar farið í mál við fyrirtækið eftir að hafa misst dýr sín. Samkvæmt upplýsingum frá Landbúnaðarstofnun er ekki vitað til þess að vörur frá þessu fyrirtæki séu til sölu hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×