Innlent

Breyttu þjóðsöng Íslendinga

Mörgum brá í brún þegar þeir horfðu á 300. þátt Spaugstofunnar í kvöld. Í lokaatriði þáttarins sungu Spaugstofumenn þjóðsöng Íslendinga með eigin texta. Í þættinum í kvöld hófst þjóðsöngurinn á þessum orðum: ,, Ó, stuð vors lands ". Textinn, sem er eftir Karl Ágúst Úlfsson, leikara er ádeila á virkjanastefnu Íslendinga og lauk honum svona:

,,Við erum eitt smáblóm, með titrandi tár, sem tilbiður Alcan og deyr"

Í 1. grein laga frá árinu 1983 segir um þjóðsöng Íslendinga:

,,Þjóðsöngur Íslendinga er „Ó Guð vors lands", ljóð eftir Matthías Jochumsson og lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar.".

Þriðja grein laganna hljóðar svo:

,,Þjóðsönginn skal ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð. Ekki er heimilt að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni. "

Brot gegn þessum ákvæðum varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Örn Árnason, leikari sagðist, í samtali við fréttastofu, ekki þekkja lögin um þjóðsönginn og að ef til þess kæmi að Spaugstofumenn yrðu kærðir fyrir þetta athæfi sitt þá myndu þeir taka á því þá.

Þetta er ekki í fyrsta sinn á ferli Spaugstofumanna sem sumum hefur þótt þeir fara yfir strikið. Ekki eru mörg ár síðan að Spaugstofan fékk á sig kæru vegna ósæmilegrar umfjöllunar.

Ekki náðist í höfund textans vegna þessa máls.

Þáttinn í heild sinni má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×