Villingurinn Stephen Jackson hjá Golden State Warriors hefur nú verið gerður að fyrirliða liðsins ásamt þeim Baron Davis og Matt Barnes. Jackson mun missa af fyrstu sjö leikjum liðsins í deildarkeppninni sem hefst í lok þessa mánaðar þar sem hann verður í banni.
Þrátt fyrir vandræði Jackson utan vallar - og stundum innan hans líka - er Don Nelson þjálfari hrifinn af framlagi hans og leiðtogahæfileikum. "Við leggjum mikið traust á Jack sem leiðtoga og allir sem spilað hafa með honum vita hvernig hann er," sagði Don Nelson.
Jackson var dæmdur í sjö leikja bann af NBA deildinni í sumar eftir að hann var dæmdur til 100 tíma samfélagsþjónustu og 5,000 dollara sektar fyrir að skjóta af byssu og stofna til óláta fyrir utan súlustað í Indianapolis í fyrra.
Jackson segist nú hafa sagt skilið við bullið og frumsýndi nýtt húðflúr þegar hann mætti til æfingabúða á dögunum. Flúrið má sjá á myndinni hér fyrir ofan en það er mynd af höndum sem biðja til Guðs - og halda á skammbyssu.
"Ég vona að ég eigi aldrei eftir að þurfa að nota byssu aftur," sagði Jackson þegar hann var beiðinn að útskýra listaverkið.