Erlent

Grafhýsi Jesú fundið?

Þetta er ein af líkkistunum sem fannst í grafhýsinu.
Þetta er ein af líkkistunum sem fannst í grafhýsinu. MYND/Getty Images
Jesús var í sambandi við Maríu Magðalenu og þau áttu son sem hét Júdas. Þessu er haldið fram í nýrri heimildamynd sem Hollywood framleiðandinn James Cameron framleiðir. Í henni er grafhýsi sem fannst árið 1980 rannsakað. Myndin heldur því fram að grafhýsið hafi verið í eigu fjölskyldu Jesú og að DNA sýni sanni að hinn eini sanni Jesú hafi verið grafinn þar.

Ísraelskir byggingaverkamenn fundu grafhýsið, sem er 2.000 ára gamalt, þegar þeir voru að reisa fjölbýlishús í nágrenni Vesturbakkans. Í grafhýsinu fundust tíu líkkistur úr kalksteini. Samkvæmt upplýsingum frá Fornleifastofnun Ísraels voru sex þeirra merktar. Á þeim stóð María, Matthías, Jesús sonur Jóseps, María, Jofa Jósep, bróðir Jesú og Júdas, sonur Jesú.

Heimildarmyndin, sem heitir Hið týnda grafhýsi Jesú, heldur því fram að samkvæmt sýnum sem voru tekin úr kistunum hafi Jesú og María Magðalena verið í þeim. Einnig er gefið í skyn að þau hafi verið í sambandi. Það segja þeir þýða að kistan merkt Júdas, sonur Jesú hafi innihaldið jarðneskar leifar sonar Jesú og Maríu.

Ísraelskir fornleifafræðingar segjast ekki trúa þeirri kenningu. Þeir benda á að nöfnin hafi öll verið mjög algeng á þeim tíma sem grafhýsið sé frá. Fornleifafræðingarnir segja þetta aðeins bragð til þess að selja myndina.

Cameron ætlar sér að sýna tvær af kistunum tíu á fréttamannafundi í dag. „Það verður ekki öllu stærra en þetta." sagði hann í fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér um helgina. „Við höfum unnið heimavinnuna okkar, fært rök fyrir máli okkar og nú er tími til kominn að umræðurnar hefjist."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×